30 ágúst, 2018

Inntak Digital - Markaðssetning á netinu á að vera einfalt mál

Markaðssetning á netinu

Við skipulag netmarkaðssetningar er þýðingarmikið að hafa í huga að engin ein nálgun er sú besta eða rétta þegar markaðssetning á netinu er annars vegar. 

Áður en markaðsáætlun er gerð þarf fyrst að finna út og ákveða hver markhópurinn eða markhóparnir okkar eru. Miða svo allt markaðsframtak okkar við það hvar markhóparnir halda sig á internetinu, og í framhaldi af því… ákveða nákvæmlega hvar og hvenær við viljum að okkar skilaboð hitti í mark.

Flókið? Við hjá Inntak Digital höfum tamið okkur að gera þetta einfalt og hnitmiðað… og höfum lært, að því meira sem við kennum viðskiptavinum okkar, þess árangursríkara og ánægjulegra verður samstarfið.


En svo vilja sumir að við bara sjáum um þetta allt, svo þeir geti einbeitt sér að því sem þeir eru góðir í.

Helstu þjónustuþættir Inntak Digital:


...og hvers konar mat, úttektir og bestun á vef-framtaki og -möguleikum. Smelltu á einstaka þætti til að sjá hvernig við berum okkur að.

Við erum staðfestir og viðurkenndir samstarfsaðilar:


Google PartnerBing ads Accredited Professional Facebook Business Manager

06 janúar, 2012

Ritzy Bryan hijacked

If you Google 'Ritzy Bryan' (of Joy Formidable), almost half of the first 20 images are mine, taken at Iceland Airwaves 2010 (It's my profession to get stuff found on search engines, photography is my hobby)

I'm enclosing a screenshot showing the images. The ones in a green frame are in my own (Flickr) website and I uploaded the blue one to last.fm. However the ones i have identified with RED have more or less been pilfered from my Flickr photos and adorn and enrich someone elses websites! That's lame!

18 mars, 2011

Holtin í Eyjahrepp á Snæfellsnesi

Amma kenndi mér þessa gömlu vísu þegar ég var krakki... Og ég legg hana hér inn svo hún fyrnist ekki

Fimm eru Holt í Eyhrepp út.
Innir bragur slakur.
Eru kennd við Hross og Hrút
Hömlu, Söðul, Akur.

Það væri gaman að vita hvort einhver annar kannast við þetta. Einhvers staðar sá ég "eru kennd við HRÓK og Hrút..."

Amma hét María Ásmundsdóttir og var frá Krossum í Staðarsveit á Snæfellsnesi.

08 maí, 2009

Bjór

Þetta er nú bara smá grín með leitarorðið Bjór.

07 maí, 2007

Frækin Færeyjaför

Ég fór til Færeyja um daginn í opinberum erindagjörðum og var það eins og við mátti búast alveg frábærlega skemmtilegt. Náttúrulega tók ég myndir, Færeyjar eru dásamlegar:



Fréttirnar bárust auðvitað eins og eldur í sinu. ;-)

12 febrúar, 2007

Gleðileg Jól x 2 + 2 x Gleðilegt Ár

= Time flies when you're having fun? Allavega kom í ljós að blogg-genið er ekki svo kröftugt í karli. Margt hefur drifið á dagana og það er ekki einu sinni að myndasafnið nái að sýna það allt! Það er þó aktívasta vef- viðvera Ólafs, ykkur er alveg velkomið að kíkja.

10 september, 2005

Hópreið vinnufélaga

Það var tekið til þess hvað kappinn sýndi fallega ásetu og hafði góða stjórn á fáknum. Það leyndi sér ekki að hér var á ferð vanur hestamaður. Hópurinn reið af stað og reiðmaðurinn mikli sýndi áfram nokkuð góða takta. Klárinn reyndist ljónviljugur og töltið var ágætt. Í ljós kom að það vantaði reyndar á hann stopptakkann og sem betur fer voru reiðfélagarnir úr augsýn þegar hnakkurinn fór undir kvið í miðri örvæntingarfullri tilraun knapans til að fá hófaljónið til að hinkra ögn eftir hinum. Ég sat keikur í hnakknum þegar þau birtust og sást ekki annað en allt væri í besta lagi. Smá ferðaryk á baki, rassi og öxl, hvað eru slíkir smámunir þegar riðið er út. Nú síðan var grillað og sötrað, sungið og tjúttað eins og lög gera ráð fyrir í starfsmannadjammi. Allir komust ósárir heim og harðsperrurnar eftir átökin við powerhrossið smá dvínuðu næstu vikuna. Sjáið fleiri myndir í myndadæminu.

Brall, bras og þras...

Það hefur bara ekki fundist tími til að skrásetja ferðir unga mannsins undanfarið, þvílík eru lætin. Enda kannski ekki von þegar sumri tekur að halla. Þá þarf að endurskipuleggja tilveruna... Gera allt þetta sem beið eftir sumrinu og búa sig undir átök vetrarins. Maðurinn er jú í skóla og það er smá mál að hamra saman prógramm sem rúmar eitt og hálft starf, skóla og fjölskyldulíf. Hérna sjáið þið hversu þreyttur hann Óli er eftir öll þessi átök!

07 ágúst, 2005

Gaypride 2005

Þetta árið ákváðum við að bíða eftir skrúðgöngunni niðri á Lækjargötu og ég verð að segja að það var hálf asnalegt að standa eins og staur og glápa... Framvegis verður sko genginn sambataktur í göngunni sjálfri. Myndavélin koksaði eftir þessa einu mynd svo restin var tekin á símann! Svo var náttlega kíkt á Jómfrúna eins og tilheyrir á þessum degi.

Takk fyrir frábæra sýningu og skemmtun!

02 ágúst, 2005

Verslunarmannahelgi á Þorgautsstöðum

Þrátt fyrir marga freistandi valkosti var afráðið að verja verslunarmannahelginni á ættaróðalinu, þar sem haldin var dýrðleg tveggja sólarhringa "rafmagnsveisla" þegar áratuga raforkuskortur Landakots var rofinn af dýrindis sólarorkurafhlöðu. Jújú við lutum í lægra haldi, lýstum okkur sigruð og getum nú hlaðið farsímana, kveikt rafljós, tengt tölvurnar og allt hitt sem þykir orðið sjálfsagður hluti siðmenningarinnar. Mig grunar þó að við munum halda áfram að taka fram olíuluktirnar og kertin þegar fer alvarlega að skyggja. Í vikunni á undan var heimreiðin skafin og kemst nú ættmóðirin upp síðasta slakkann í einni atrennu í stað tíu. Auðvitað var ýmislegt sýslað eins og myndirnar sýna glöggt.

25 júlí, 2005

Hauganesshátíðin 2005

Fyrir þá sem vita það ekki er Hauganes næsta þorp við Árskógssand, á milli Akureyrar og Dalvíkur. Hátíðin fer árlega fram á skreyttri og ljósum prýddri bryggjunni og eftir dorgkeppni og ýmislegt barnvænt gaman rúlla Haugnesingar grillunum sínum niður á bryggju. Svo er eldað, borðað, sungið, spilað, drukkið og djammað á meðan nokkur hræða er uppistandandi. Leikir, karamelluflugvél, brenna og flugeldasýning eru á meðal fastra liða og svo auðvitað tilheyrandi uppistand, vesen, skandalar og vitleysa sem tilheyrir á almennilegri bryggjuhátíð. Einhver er alltaf með stærsta grillið, venjulega Björn yfirþorpari. Líka núna, en það verður erfitt að toppa grill ársins í ár. Jafnvel þrautreyndir kolamokarar grétu blóðugum tárum með sviðnar augabrúnir eftir að standa við það í þær fáu mínútur sem það tók að glóða réttina. Þarna hefði mátt grilla heilan hval á örskotsstundu en flestir voru með minni skammta. Allt fór auðvitað vel að lokum og ekki er vitað betur en að allir hátíðargestir hafi komist ósviðnir á hjarta til síns heima.

Takk fyrir okkur Haugnesingar!

15 júlí, 2005

Aftur Þorgautsstaðir!

Þessi ferð var kannski ekki eins fjölmenn eða frækileg og sú fyrri, en þess meiri friður og sæla. Hver sinnti sínum hugðarefnum á milli þess að safnast var saman til veisluhalda og veitingarnar auðvitað ekki af verra taginu. Eins og sést út um eldhússgluggann var veðrið að mestu alveg frábært, enda var nýja sláttuorfið vígt á sunnudaginn. Sóleyjunum var auðvitað þyrmt!

Frænkupartý hjá ömmu Stefönu

Júlíu frænku var fagnað með frænkupartýi á Hávallagötunni þegar hún kom til baka eftir langa Ástralíuvist. Góðu fréttirnar eru að hún hefur bara þrifist vel í Lengstniðrilandi... En þær slæmu að hún hyggst fara aftur þangað! Kínamatur var sóttur og snæddur, og síðan fóru fram aðalfundarstörf frænkuklúbbsins sem auðvitað eru svo leynileg að ekkert hefur heyrst af þeim. Af myndum má dæma að þetta hafi allt farið vel fram og framtíð félagsskaparins mun aldrei hafa verið bjartari.

14 júlí, 2005

Fyrsta Þorgautsstaðaferð sumarsins

Á sveitasetri fjölskyldunnar tók ættmóðirin á móti fullorðna fólkinu með hressandi Jaegermeister og varð úr veisla sem entist fram á sunnudagskvöld. Unga fólkið fór í rannsóknarleiðangur um Hvítársíðu, skoðaðir voru Hraun- og Barnafossar og svo sundlaugin í Húsafelli. Spilamennska var ástunduð af þvílíku kappi að ekki þótti fært annað en að láta alla spilarana takast í hendur að leikslokum. Það gekk illa að koma mannskapnum í bæinn, enda tæpast ásættanlegt að leggja niður spilin áður en ljóst væri hver hrósaði sigri. Að lokum gerði Sunneva það, en hinir og þessir leikmenn tuldruðu enn í barminn þegar yfir lauk. Þrátt fyrir smá votviðri á köflum var töluvert slegið þessa helgi og rakað í múga.

13 júlí, 2005

Meira frá humarhátíðinni

Hérna koma fleiri myndir frá Humarhátíðinni miklu... Ásla stillti sér t.d. glaðbeitt upp með þetta nýveidda, léttgrillaða skrímsli sem var í boði Nonna bróður Ronna. Við droppuðum við þar án þess að gera boð á undan okkur og sjá... Þar kraumaði úrvals humarsúpa á hlóðum undir vökulum augum húsmóðurinnar, háir hraukar af risahumrum voru að hlýna á tveimur grillum, ekta sangría hússins var mixuð af húsbóndanum og boðið upp á eðalhvítvín og dularfullt blátt hanastél. Það varð ENGINN svangur þessa helgi!

05 júlí, 2005

Humarhátíð 2005

Þá er önnur humarhátíð komin í safnið... Þetta er orðinn fastur liður hjá kallinum. Í fyrsta lagi eru Hornfirðingar bara fjári duglegir að setja saman massaðan viðburð... Og svo er náttúrulega tekið á móti manni eins og um kóngi hjá húsráðendum hér. Svanný og Ronni eðalhjón kunna sko svo sannarlega að taka við gestum. Held þau hafi toppað síðustu humarhátíð núna! Enda var innihátíðin svo fjörug að það kom ekkert að sök þótt hin væri frekar róleg. Gagnstætt öllum fregnum var fyrirtaks veður á Höfn þessa helgi, það kom bara smá skot í restina sem náði í fréttirnar. Baldur og Sandra drifu sig austur og tóku þátt í gleðskapnum, en þarna djömmuðu þrjár kynslóðir af hjartans list og lystin var sko í góðu lagi! Takk fyrir okkur kæru gestjafar, börn, barnabörn, vinir, ferðafélagar og Hornfirðingar... Ég býst við að ég verði að rekja þetta í lengra máli og ætla að skjóta inn myndum frá herlegheitunum líka.

18 júní, 2005

17. júní... Fimm féllu í yfirlið!

Heitasti sautjándijúní evvör, hvorki meira né minna. Maður hefði ekki slegið hendinni á móti þessu veðri þegar maður barðist móti slagviðrinu með tvær stríðsmálaðar strumpastelpur og eitt kíló af myndavél hérna í denn. En það var samt býsna gaman... Við fórum gjarnan í strætó til að þurfa ekki að sækja bílinn eitthvað útí buskann þegar úthaldið þryti og svo var bara gengin galeiðan eins og ekkert væri sjálfsagðara. Í gær var þetta örruvísi... Annar strumpurinn rétt ókomin frá Köben og hinn undi glöð við sitt, Sautjándi júní vodd!!!

Ásla og skólinn hennar voru heiðruð, skjölluð og heiðursskjöluð eins og við átti, Meistarakokkar framtíðarinnar höfðu greinilega slegið í gegn svo eftir var tekið og meistarakennarinn var í góðum félagsskap með öðrum afrekskennurum, afburðanemendum og skólastjórnendum þeirra. Að lokum bauð borgin viðstöddum í kaffi og meððí. Að svo búnu örkuðum við á Jómfrúna með heiðursskjalið í gullramma undir hendinni ásamt Kris, Jóa, Daníel og Karen. Þrátt fyrir sundurleitan hóp og ójafnar langanir og þarfir komu allir sér saman um að hlamma sér niður á Arnarhóli þar sem Sigga Beinteins, Ástralskur einhjólskúreki og fleiri furðudýr skemmtu okkur konunglega. Kvöldið var svo kórónað með snilldargrillveislu. Helga María, Jói og Guðrún granni bættust í gleðskapinn, auðvitað var borðað úti í garði og nágrönnum skemmt eins lengi og hlýjan lifði.

~Hæjjhójibbíjeijjogjibbíojeijj... Það er kominn átjándi júní!~

16 júní, 2005

Einn svolítið montinn núna

Nú verð ég að fara að dusta rykið af jakkafötunum því á morgun ætlar borgarstjórinn í Reykjavík að heiðra uppáhalds kennslukonuna mína. Hún fær hvatningarverðlaun Menntaráðs fyrir hina frábæru kokkakeppni Rimaskóla sem hún hefur staðið fyrir undanfarin tvö ár við mikinn fögnuð aðstandenda. Sjáið nánar um kokkakeppnina hérna og um verðlaunin hérna. Fylgist þið bara með... Þessi stelpa á sko ýmislegt fleira í pokahorninu!

Fyrst ég er að tala um hana Áslu mína get ég ekki stillt mig um að sýna ykkur frá fertugsafmælinu hennar sem var auðvitað haldið með stæl... Sjáið bara hvað hún var fín!

14 júní, 2005

Síðasta bloggið um bloggið

Jújú, það er best að bretta bara upp ermarnar... Eins og ég sagði. Næst verður grúskað eftir þessum hugsunum sem langar til að birtast. Eitthvað sem ég þarf að deila með veröldinni. Háleitt eða hversdagslegt, sniðugt eða snúðugt... Maður hlýtur þó að geta nöldrað... Það er nóttlega þjóðaríþrótt... Jarma yfir veðrinu og harma sína aumu tilvist, jújú er það ekki bara... Það hlýtur að trekkja (sko bara... nú er maður farinn að velta áhorfinu fyrir sér;)

HÓ HÓ Onvígó-!

13 júní, 2005

Á maður svo að fara að blaðra...

Jæja... er maður þá búinn að skuldbinda sig til að koma með eitthvað ógleymanlegt hérna á hverjum degi minnst? Nei... endurtek að það er sko eins gott að fara bara fínt með þetta, ég er að vísu búinn að láta örfáa nákomna vita. Nú er ég náttúrulega að klúðra því að geta bara fryst úti með NO UPDATES. En kannski komu þessir örfáu bara einu sinni fyrir kurteisissakir og hugsuðu... Jæja... nú er kallinn búinn að tapa glórunni. Svo endar maður náttúrulega eins og allir hinir bloggararnir, maður fer að prómótera og reka fólk til að skoða baki brotnu! Þið sem lesið... plís ekki vera að röfla um þetta við aðra... Látum þetta bara lognast út af í rólegheitunum, annars veit maður aldrei hvernig 'etta endar!

(pssst! skrifaðu eitthvað comment til að kitla hégómagirndina mína)

10 júní, 2005

Hmmm virkar þetta?

Þetta er lítil tilraun... Athuga hvort það leynist eitthvað í kollinum sem langar að komast á framfæri við gesti og gangandi. Eins og sést hefur "bloggarinn" efasemdir. Hef lesið leiðinleg og skemmtileg blogg og fer náttúrulega ekki að halda úti einhverjum leiðindaskrifum. Kannski hef ég bara enga þörf fyrir að tjá mig en mar er nottlah skemmtikraftur af guðsnáð sem vantar helst þörfina til að tjá sig. Hmmm kannski er maður bara hræddur að hleypa út öllum skrýtnu hugsununum sem eru að þvælast þarna. Smeykur um að það verði híað ámann ;) Best að vísa engum á þetta :P

Hí á þá sem lesa það EKKI!