07 ágúst, 2005

Gaypride 2005

Þetta árið ákváðum við að bíða eftir skrúðgöngunni niðri á Lækjargötu og ég verð að segja að það var hálf asnalegt að standa eins og staur og glápa... Framvegis verður sko genginn sambataktur í göngunni sjálfri. Myndavélin koksaði eftir þessa einu mynd svo restin var tekin á símann! Svo var náttlega kíkt á Jómfrúna eins og tilheyrir á þessum degi.

Takk fyrir frábæra sýningu og skemmtun!

02 ágúst, 2005

Verslunarmannahelgi á Þorgautsstöðum

Þrátt fyrir marga freistandi valkosti var afráðið að verja verslunarmannahelginni á ættaróðalinu, þar sem haldin var dýrðleg tveggja sólarhringa "rafmagnsveisla" þegar áratuga raforkuskortur Landakots var rofinn af dýrindis sólarorkurafhlöðu. Jújú við lutum í lægra haldi, lýstum okkur sigruð og getum nú hlaðið farsímana, kveikt rafljós, tengt tölvurnar og allt hitt sem þykir orðið sjálfsagður hluti siðmenningarinnar. Mig grunar þó að við munum halda áfram að taka fram olíuluktirnar og kertin þegar fer alvarlega að skyggja. Í vikunni á undan var heimreiðin skafin og kemst nú ættmóðirin upp síðasta slakkann í einni atrennu í stað tíu. Auðvitað var ýmislegt sýslað eins og myndirnar sýna glöggt.