10 september, 2005

Hópreið vinnufélaga

Það var tekið til þess hvað kappinn sýndi fallega ásetu og hafði góða stjórn á fáknum. Það leyndi sér ekki að hér var á ferð vanur hestamaður. Hópurinn reið af stað og reiðmaðurinn mikli sýndi áfram nokkuð góða takta. Klárinn reyndist ljónviljugur og töltið var ágætt. Í ljós kom að það vantaði reyndar á hann stopptakkann og sem betur fer voru reiðfélagarnir úr augsýn þegar hnakkurinn fór undir kvið í miðri örvæntingarfullri tilraun knapans til að fá hófaljónið til að hinkra ögn eftir hinum. Ég sat keikur í hnakknum þegar þau birtust og sást ekki annað en allt væri í besta lagi. Smá ferðaryk á baki, rassi og öxl, hvað eru slíkir smámunir þegar riðið er út. Nú síðan var grillað og sötrað, sungið og tjúttað eins og lög gera ráð fyrir í starfsmannadjammi. Allir komust ósárir heim og harðsperrurnar eftir átökin við powerhrossið smá dvínuðu næstu vikuna. Sjáið fleiri myndir í myndadæminu.

Brall, bras og þras...

Það hefur bara ekki fundist tími til að skrásetja ferðir unga mannsins undanfarið, þvílík eru lætin. Enda kannski ekki von þegar sumri tekur að halla. Þá þarf að endurskipuleggja tilveruna... Gera allt þetta sem beið eftir sumrinu og búa sig undir átök vetrarins. Maðurinn er jú í skóla og það er smá mál að hamra saman prógramm sem rúmar eitt og hálft starf, skóla og fjölskyldulíf. Hérna sjáið þið hversu þreyttur hann Óli er eftir öll þessi átök!