18 júní, 2005

17. júní... Fimm féllu í yfirlið!

Heitasti sautjándijúní evvör, hvorki meira né minna. Maður hefði ekki slegið hendinni á móti þessu veðri þegar maður barðist móti slagviðrinu með tvær stríðsmálaðar strumpastelpur og eitt kíló af myndavél hérna í denn. En það var samt býsna gaman... Við fórum gjarnan í strætó til að þurfa ekki að sækja bílinn eitthvað útí buskann þegar úthaldið þryti og svo var bara gengin galeiðan eins og ekkert væri sjálfsagðara. Í gær var þetta örruvísi... Annar strumpurinn rétt ókomin frá Köben og hinn undi glöð við sitt, Sautjándi júní vodd!!!

Ásla og skólinn hennar voru heiðruð, skjölluð og heiðursskjöluð eins og við átti, Meistarakokkar framtíðarinnar höfðu greinilega slegið í gegn svo eftir var tekið og meistarakennarinn var í góðum félagsskap með öðrum afrekskennurum, afburðanemendum og skólastjórnendum þeirra. Að lokum bauð borgin viðstöddum í kaffi og meððí. Að svo búnu örkuðum við á Jómfrúna með heiðursskjalið í gullramma undir hendinni ásamt Kris, Jóa, Daníel og Karen. Þrátt fyrir sundurleitan hóp og ójafnar langanir og þarfir komu allir sér saman um að hlamma sér niður á Arnarhóli þar sem Sigga Beinteins, Ástralskur einhjólskúreki og fleiri furðudýr skemmtu okkur konunglega. Kvöldið var svo kórónað með snilldargrillveislu. Helga María, Jói og Guðrún granni bættust í gleðskapinn, auðvitað var borðað úti í garði og nágrönnum skemmt eins lengi og hlýjan lifði.

~Hæjjhójibbíjeijjogjibbíojeijj... Það er kominn átjándi júní!~

16 júní, 2005

Einn svolítið montinn núna

Nú verð ég að fara að dusta rykið af jakkafötunum því á morgun ætlar borgarstjórinn í Reykjavík að heiðra uppáhalds kennslukonuna mína. Hún fær hvatningarverðlaun Menntaráðs fyrir hina frábæru kokkakeppni Rimaskóla sem hún hefur staðið fyrir undanfarin tvö ár við mikinn fögnuð aðstandenda. Sjáið nánar um kokkakeppnina hérna og um verðlaunin hérna. Fylgist þið bara með... Þessi stelpa á sko ýmislegt fleira í pokahorninu!

Fyrst ég er að tala um hana Áslu mína get ég ekki stillt mig um að sýna ykkur frá fertugsafmælinu hennar sem var auðvitað haldið með stæl... Sjáið bara hvað hún var fín!

14 júní, 2005

Síðasta bloggið um bloggið

Jújú, það er best að bretta bara upp ermarnar... Eins og ég sagði. Næst verður grúskað eftir þessum hugsunum sem langar til að birtast. Eitthvað sem ég þarf að deila með veröldinni. Háleitt eða hversdagslegt, sniðugt eða snúðugt... Maður hlýtur þó að geta nöldrað... Það er nóttlega þjóðaríþrótt... Jarma yfir veðrinu og harma sína aumu tilvist, jújú er það ekki bara... Það hlýtur að trekkja (sko bara... nú er maður farinn að velta áhorfinu fyrir sér;)

HÓ HÓ Onvígó-!

13 júní, 2005

Á maður svo að fara að blaðra...

Jæja... er maður þá búinn að skuldbinda sig til að koma með eitthvað ógleymanlegt hérna á hverjum degi minnst? Nei... endurtek að það er sko eins gott að fara bara fínt með þetta, ég er að vísu búinn að láta örfáa nákomna vita. Nú er ég náttúrulega að klúðra því að geta bara fryst úti með NO UPDATES. En kannski komu þessir örfáu bara einu sinni fyrir kurteisissakir og hugsuðu... Jæja... nú er kallinn búinn að tapa glórunni. Svo endar maður náttúrulega eins og allir hinir bloggararnir, maður fer að prómótera og reka fólk til að skoða baki brotnu! Þið sem lesið... plís ekki vera að röfla um þetta við aðra... Látum þetta bara lognast út af í rólegheitunum, annars veit maður aldrei hvernig 'etta endar!

(pssst! skrifaðu eitthvað comment til að kitla hégómagirndina mína)

10 júní, 2005

Hmmm virkar þetta?

Þetta er lítil tilraun... Athuga hvort það leynist eitthvað í kollinum sem langar að komast á framfæri við gesti og gangandi. Eins og sést hefur "bloggarinn" efasemdir. Hef lesið leiðinleg og skemmtileg blogg og fer náttúrulega ekki að halda úti einhverjum leiðindaskrifum. Kannski hef ég bara enga þörf fyrir að tjá mig en mar er nottlah skemmtikraftur af guðsnáð sem vantar helst þörfina til að tjá sig. Hmmm kannski er maður bara hræddur að hleypa út öllum skrýtnu hugsununum sem eru að þvælast þarna. Smeykur um að það verði híað ámann ;) Best að vísa engum á þetta :P

Hí á þá sem lesa það EKKI!