Hauganesshátíðin 2005
Fyrir þá sem vita það ekki er Hauganes næsta þorp við Árskógssand, á milli Akureyrar og Dalvíkur. Hátíðin fer árlega fram á skreyttri og ljósum prýddri bryggjunni og eftir dorgkeppni og ýmislegt barnvænt gaman rúlla Haugnesingar grillunum sínum niður á bryggju. Svo er eldað, borðað, sungið, spilað, drukkið og djammað á meðan nokkur hræða er uppistandandi. Leikir, karamelluflugvél, brenna og flugeldasýning eru á meðal fastra liða og svo auðvitað tilheyrandi uppistand, vesen, skandalar og vitleysa sem tilheyrir á almennilegri bryggjuhátíð. Einhver er alltaf með stærsta grillið, venjulega Björn yfirþorpari. Líka núna, en það verður erfitt að toppa grill ársins í ár. Jafnvel þrautreyndir kolamokarar grétu blóðugum tárum með sviðnar augabrúnir eftir að standa við það í þær fáu mínútur sem það tók að glóða réttina. Þarna hefði mátt grilla heilan hval á örskotsstundu en flestir voru með minni skammta. Allt fór auðvitað vel að lokum og ekki er vitað betur en að allir hátíðargestir hafi komist ósviðnir á hjarta til síns heima.
Takk fyrir okkur Haugnesingar!