25 júlí, 2005

Hauganesshátíðin 2005

Fyrir þá sem vita það ekki er Hauganes næsta þorp við Árskógssand, á milli Akureyrar og Dalvíkur. Hátíðin fer árlega fram á skreyttri og ljósum prýddri bryggjunni og eftir dorgkeppni og ýmislegt barnvænt gaman rúlla Haugnesingar grillunum sínum niður á bryggju. Svo er eldað, borðað, sungið, spilað, drukkið og djammað á meðan nokkur hræða er uppistandandi. Leikir, karamelluflugvél, brenna og flugeldasýning eru á meðal fastra liða og svo auðvitað tilheyrandi uppistand, vesen, skandalar og vitleysa sem tilheyrir á almennilegri bryggjuhátíð. Einhver er alltaf með stærsta grillið, venjulega Björn yfirþorpari. Líka núna, en það verður erfitt að toppa grill ársins í ár. Jafnvel þrautreyndir kolamokarar grétu blóðugum tárum með sviðnar augabrúnir eftir að standa við það í þær fáu mínútur sem það tók að glóða réttina. Þarna hefði mátt grilla heilan hval á örskotsstundu en flestir voru með minni skammta. Allt fór auðvitað vel að lokum og ekki er vitað betur en að allir hátíðargestir hafi komist ósviðnir á hjarta til síns heima.

Takk fyrir okkur Haugnesingar!

15 júlí, 2005

Aftur Þorgautsstaðir!

Þessi ferð var kannski ekki eins fjölmenn eða frækileg og sú fyrri, en þess meiri friður og sæla. Hver sinnti sínum hugðarefnum á milli þess að safnast var saman til veisluhalda og veitingarnar auðvitað ekki af verra taginu. Eins og sést út um eldhússgluggann var veðrið að mestu alveg frábært, enda var nýja sláttuorfið vígt á sunnudaginn. Sóleyjunum var auðvitað þyrmt!

Frænkupartý hjá ömmu Stefönu

Júlíu frænku var fagnað með frænkupartýi á Hávallagötunni þegar hún kom til baka eftir langa Ástralíuvist. Góðu fréttirnar eru að hún hefur bara þrifist vel í Lengstniðrilandi... En þær slæmu að hún hyggst fara aftur þangað! Kínamatur var sóttur og snæddur, og síðan fóru fram aðalfundarstörf frænkuklúbbsins sem auðvitað eru svo leynileg að ekkert hefur heyrst af þeim. Af myndum má dæma að þetta hafi allt farið vel fram og framtíð félagsskaparins mun aldrei hafa verið bjartari.

14 júlí, 2005

Fyrsta Þorgautsstaðaferð sumarsins

Á sveitasetri fjölskyldunnar tók ættmóðirin á móti fullorðna fólkinu með hressandi Jaegermeister og varð úr veisla sem entist fram á sunnudagskvöld. Unga fólkið fór í rannsóknarleiðangur um Hvítársíðu, skoðaðir voru Hraun- og Barnafossar og svo sundlaugin í Húsafelli. Spilamennska var ástunduð af þvílíku kappi að ekki þótti fært annað en að láta alla spilarana takast í hendur að leikslokum. Það gekk illa að koma mannskapnum í bæinn, enda tæpast ásættanlegt að leggja niður spilin áður en ljóst væri hver hrósaði sigri. Að lokum gerði Sunneva það, en hinir og þessir leikmenn tuldruðu enn í barminn þegar yfir lauk. Þrátt fyrir smá votviðri á köflum var töluvert slegið þessa helgi og rakað í múga.

13 júlí, 2005

Meira frá humarhátíðinni

Hérna koma fleiri myndir frá Humarhátíðinni miklu... Ásla stillti sér t.d. glaðbeitt upp með þetta nýveidda, léttgrillaða skrímsli sem var í boði Nonna bróður Ronna. Við droppuðum við þar án þess að gera boð á undan okkur og sjá... Þar kraumaði úrvals humarsúpa á hlóðum undir vökulum augum húsmóðurinnar, háir hraukar af risahumrum voru að hlýna á tveimur grillum, ekta sangría hússins var mixuð af húsbóndanum og boðið upp á eðalhvítvín og dularfullt blátt hanastél. Það varð ENGINN svangur þessa helgi!

05 júlí, 2005

Humarhátíð 2005

Þá er önnur humarhátíð komin í safnið... Þetta er orðinn fastur liður hjá kallinum. Í fyrsta lagi eru Hornfirðingar bara fjári duglegir að setja saman massaðan viðburð... Og svo er náttúrulega tekið á móti manni eins og um kóngi hjá húsráðendum hér. Svanný og Ronni eðalhjón kunna sko svo sannarlega að taka við gestum. Held þau hafi toppað síðustu humarhátíð núna! Enda var innihátíðin svo fjörug að það kom ekkert að sök þótt hin væri frekar róleg. Gagnstætt öllum fregnum var fyrirtaks veður á Höfn þessa helgi, það kom bara smá skot í restina sem náði í fréttirnar. Baldur og Sandra drifu sig austur og tóku þátt í gleðskapnum, en þarna djömmuðu þrjár kynslóðir af hjartans list og lystin var sko í góðu lagi! Takk fyrir okkur kæru gestjafar, börn, barnabörn, vinir, ferðafélagar og Hornfirðingar... Ég býst við að ég verði að rekja þetta í lengra máli og ætla að skjóta inn myndum frá herlegheitunum líka.